„Ég kláraði Ljósgildruna á tæpri viku. Eins og margar góðar bækur er Ljósgildran tilraun, þar er steypt saman nokkrum sögum, nokkrum heimum, nokkrum settum af sögupersónum. Á ytra borðinu er sagan samhverf og þaulskipulögð, 800 síður þar sem aðalpersónur sögunnar hittast á blaðsíðu 400. Atburðir sögunnar eru hins vegar hvorki skipulagðir né samhverfir, lífi hjónanna Láru og Jakobs eru snúið á hvolf í einu vetfangi, hótel á Þingvöllum fuðrar upp á fáeinum augnablikum og svo finnast gestir hótelsins ekki einu sinni í rústunum - þvílík óskammfeilni af gestunum! Eins og eldurinn í Kaupinhafn brenndi marga alda sögu að eilífu fer upphafssöguþráður Ljósgildrunnar á helgasta stað þjóðarinnar, Þingvöllum, sömu leið í eldi sem verður eiginlega svona af því bara eins og í þjóðsögunum. Frá upphafseldi bókarinnar kviknar svo í þráðum út um allt þjóðfélagið, sem enda síðan í margs kyns rústum í lokin. Af því ég er jafn hrifinn af politically incorrect bókmenntum og ég er, þá er ég kannski áómatískt hrifinn af Ljósgildrunni. Íslenskur nútímalitteratúr er yfirleitt alveg ofboðslega fyrirséður. Söguhetjurnar drykkfelldir karlmenn á miðjum aldri eða þá krónískt sorgmæddar konur sem völdu í den ranga eiginmanninn/elskhugann; alveg ofboðslega þreytt allt saman, en er hampað á óteljandi verðlaunahátíðum - sem bókaforlögin kosta sjálf, nota bene - sem ódauðlegri list. Þessi list er síðan klöppuð upp innan Þjóðleikhússveggjanna í „endursköpuðum“ leikgerðum, svona til að meika ennþá meiri monní úr listinni. Ljósgildran er allt annað en hefðbundin, hún er að mörgu leyti kaotískt verk í allri sinni samfellu en stundum fæðist fegurð úr kaosinu og það á við hér: Veikindi Láru og samskipti þeirra hjóna í veikindum hennar til dæmis gríðarlega fallegur kafli bókarinnar, meistaralega skrifaður og skilur eftir sig það sem hægt væri að kalla hræðilega fegurð eins og Yeats heitinn orðaði það á síum tíma. Íslenskur litteratúr þarf einfaldlega fleiri bækur eins og Ljósgildruna. Hún er merk nýjung og kærkomið uppbrot á endalausum harmsögum ævi minnar í íslenskum nútímabókmenntum. Lifi uppreisnin!“
Hlynur Grímsson, sérfræðingur í krabbameinslækningum, rithöfundur og bókmenntafræðingur