fbpx
Umfjöllun og ritdómar
Umsögn dómnefndar:  „Marglaga og margslungið skáldverk sem er allt í senn, sársaukafullt tregaljóð, skúrkasaga, samtímasaga, ádeila á verðmætamat samfélagsins og karnivalísk afbygging þar sem furðuverur varpa ljósi á valdakerfi samtímans. Úthugsuð uppbygging sem er reglulega sprengd upp - þegar textinn flæðir yfir mörk alls þess sem hingað til hefur skilgreint skáldsögur. Tímamótaverk þar sem bókstaflega allt er undir.“

Ljósgildran er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta


„Syrgjandinn er dýr sem ferðast hægt“ – Ljósberar og harmsugur, kjánar og krónprinsar 

Í vandaðri umfjöllun um Ljósgildruna í TMM segir Vera Knútsdóttir meðal annars: 

„Verkið er marglaga í þeim skilningi að það býr yfir mörgum ólíkum frásagnarþráðum sem svo fléttast mismikið saman. Grunnstef þess, og það áhugaverðasta að mínu mati, er engu að síður ástin á bókmenntum sem einnig mætti kalla sjálfssögu (e. metafiction) því Ljósgildran er sannarlega metasaga; saga sem fjallar um aðrar sögur og hefur að geyma fjöldann allan af römmum, frásagnarspeglum, „mise en abyme“ og öðrum frásagnar-„flækjum“ – og vísar fram og til baka í bókmenntahefðina.“

Vera Knútsdóttir, gagnrýnandi hjá Tímariti Máls og menningar


Gréta Sigríður Einarsdóttir fjallar um Ljósgildruna í Víðsjá og kallar bókina „velsmíðað meistarastykki“, segir að hún „byggi […] á öllu því helsta sem vestræn menning hefur fram að færa“. Og að það sé „stórskemmtilegt að lesa textann“.

Gréta Sigríður Einarsdóttir,  gagnrýnandi hjá RÚV


Bókmenntagagnrýni á Menningarvef RÚV
Í skemmtilegum dómi sínum í Lestrarklefanum  spyr bókmenntafræðingurinn Sjöfn Hauksdóttir sig margra áhugaverðra spurninga um Ljósgildruna. Bókin á sér fáar íslenskar fyrirmyndir að hennar mati en hún minnir helst á „feitar bandarískar bækur um kynslóðir og samtíma“ eins og Pulitzer-verðlaunabókin Middlesex eftir Jefrey Eugenides „eða bústinn, rússneskan doðrant um eymd og sjálfsvíg. Samt ekki.“ Niðurstaða Sjafnar er sú að þetta sé bók sem allir eigi að lesa. „Markhópurinn eru allir og enginn, hún spannar vítt svið forms og stefnu og allir ættu að finna eitthvað í henni við sitt hæfi. Við skulum auk þess ekkert látið stærðina hræða okkur, lesum bókina bara eins og við myndum borða fíl, eitt prósent í einu.“

Sjöfn Hauksdóttir,  Lestrarklefinn


1,4 kíló af hnignun - ritdómur
Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur, leikstjóri, sviðslistafræðingur og  bókmenntafræðingur,  skrifar langa hugleiðingu um Ljósgildruna á vef sínum. Þar segir hún m.a.: „Ljósgildran er hiklaust lestrarveisla í margföldum skilningi. Hún leiftrar af frásagnargleði, höfundurinn hefur gífurlegt vald á texta og tungumáli og hikar ekki við að beita ærslafengnum húmor og háði. Það ríkir sem sagt engin deyfð í texta og stíl, þar er bæði að finna fantasíu og súrrealisma í þeirri ádeilu á íslenskt samfélag sem bókin er. En gamanið kárnar vissulega. Undir öllum textanum liggur tragedía skáldsins sem ekki finnur merkingu í táradalnum sem þessi stutta dvöl okkar í alheimsgeimi er, jafnvel þótt hann fái eftirsótt bókmenntaverðlaun.“

Hlín Agnarsdóttir,  Hlin Agnarz


Um lestrarveislur - hugleiðing
Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur, leikstjóri, sviðslistafræðingur og  bókmenntafræðingur kallar Ljósgildruna  í umfjöllun á vef Borgarbókasafnsins:  „Þungavigtarbók ársins“ og segir hana „tímamótaverk […] sem er á við nokkrar skáldsögur, ljóðabækur og kvikmyndir. Það er alveg bráðhollt að lesa hnullunga sem kryfja samtíma okkar og menningu eins og  Guðni gerir í Ljósgildrunni á meistaralegan hátt.“
Hlín Agnarsdóttir,  Lesandinn


Umfjöllun á vef Borgarbókasafnins
„Ég kláraði Ljósgildruna á tæpri viku. Eins og margar góðar bækur er Ljósgildran  tilraun, þar er steypt saman nokkrum sögum, nokkrum heimum, nokkrum settum af sögupersónum. Á ytra borðinu er sagan samhverf og þaulskipulögð, 800 síður þar sem aðalpersónur sögunnar hittast á blaðsíðu 400. Atburðir sögunnar eru hins vegar hvorki skipulagðir né samhverfir, lífi hjónanna Láru og Jakobs eru snúið á hvolf í einu vetfangi, hótel á Þingvöllum fuðrar upp á fáeinum augnablikum og svo finnast gestir hótelsins ekki einu sinni í rústunum - þvílík óskammfeilni af gestunum! Eins og eldurinn í Kaupinhafn brenndi marga alda sögu að eilífu fer upphafssöguþráður Ljósgildrunnar á helgasta stað þjóðarinnar, Þingvöllum, sömu leið í eldi sem verður eiginlega svona af því bara eins og í þjóðsögunum. Frá upphafseldi bókarinnar kviknar svo í þráðum út um allt þjóðfélagið, sem enda síðan í margs kyns rústum í lokin. Af því ég er jafn hrifinn af politically incorrect bókmenntum og ég er, þá er ég kannski áómatískt hrifinn af Ljósgildrunni. Íslenskur nútímalitteratúr er yfirleitt alveg ofboðslega fyrirséður. Söguhetjurnar drykkfelldir karlmenn á miðjum aldri eða þá krónískt sorgmæddar konur sem völdu í den ranga eiginmanninn/elskhugann; alveg ofboðslega þreytt allt saman, en er hampað á óteljandi verðlaunahátíðum - sem bókaforlögin kosta sjálf, nota bene - sem ódauðlegri list. Þessi list er síðan klöppuð upp innan Þjóðleikhússveggjanna í „endursköpuðum“ leikgerðum, svona til að meika ennþá meiri monní úr listinni. Ljósgildran  er allt annað en hefðbundin, hún er að mörgu leyti kaotískt verk í allri sinni samfellu en stundum fæðist fegurð úr kaosinu og það á við hér: Veikindi Láru og samskipti þeirra hjóna í veikindum hennar til dæmis gríðarlega fallegur kafli bókarinnar, meistaralega skrifaður og skilur eftir sig það sem hægt væri að kalla hræðilega fegurð  eins og Yeats heitinn orðaði það á síum tíma. Íslenskur litteratúr þarf einfaldlega fleiri bækur eins og Ljósgildruna. Hún er merk nýjung og kærkomið uppbrot á endalausum harmsögum ævi minnar í íslenskum nútímabókmenntum. Lifi uppreisnin!“

Hlynur Grímsson, sérfræðingur í krabbameinslækningum, rithöfundur og bókmenntafræðingur


Lesstofan ehf., Flókagötu 60, 105 Reykjavík
Kt. 570511-1060 | VSK númer 110076 
 Sími: ‭662-0897‬  lesstofan@lesstofan.is